Konur vinna ókeypis eftir kl. 14:48 24. október 2017!

Í dag er 24. október 2017, en konur á Íslandi gengu fyrst út þann dag árið 1975 til að mótmæla mun á kjörum kvenna og karla, undir yfirskriftinni Kvennafrí. Konur gengu einnig út árið 1985, 2005, 2010 og 2016.

Hagstofa Íslands birti í dag nýjustu tölur um launamun kynjanna sem ná yfir árið 2016. Launamunur milli kvenna og karla hefur dregist saman síðustu árin en er enn óásættanlega hár. Meðalatvinnutekjur kvenna árið 2016 voru 72,5% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 27,5% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 48 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.

Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:48 í dag.

Árið 2005 konur gengu í tugþúsunda tali út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Og árið 2016 gengu konur út klukkan 14:38. Launamunur milli kvenna og karla hefur hefur samkvæmt þessu dregist meira saman síðastliðin tvö ár samanborið við áratuginn á undan.

Þó þokumst við alltof hægt áfram í átt til kjarajafnréttis. Konur í dag vinna ókeypis eftir kl. 14:48. Við höfum grætt fjörutíu mínútur á tólf árum. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í tæplega 35 ár eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2052! Það er óásættanlegt!

Krafan frá 2016 er óbreytt. Við gerum við þá kröfu að tryggt verði KJARAJAFNRÉTTI STRAX! Við köllum eftir afstöðu allra flokka sem bjóða sig fram til Alþingis til þess hvernig þeir ætla að tryggja jöfn laun og jöfn kjör!

kvennafri, 2016, austurvollur

Yfirlýsing baráttufundar kvenna á Austurvelli 24. október 2016

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Kvennafrídagurinn vakti verðskuldaða athygli um allan heim.

Árið 1985 var haldið upp á kvennafrídaginn í annað sinn og aftur lögðu 25.000 konur niður vinnu.

Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í þriðja sinn, og konur gengu í tugþúsundatali út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla, kl. 14:08.

Árið 2010 gengu konur út kl. 14:25. Nú ganga konur út kl. 14:38. Við höfum þokast áfram um hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 ár eftir að konur fái sömu laun og sömu kjör og karlar. Það er óþolandi!

Atvinnutekjur kvenna eru að meðaltali 70,3% af atvinnutekjum karla. Störf kvenna eru gróflega vanmetin, vinnumarkaðurinn er kynskiptur, kvennastéttir eru lágt launaðar og launamisrétti fyrirfinnst víða. Konur eru enn í minnihluta í sveitarstjórnum og á Alþingi. Það á líka við í flestum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Karlar ráða ferðinni í stjórnum flestra fyrirtækja í atvinnulífinu og minnihluti framkvæmdastjóra eru konur.

Konur mæta margs konar fordómum á vinnumarkaði. Þær eru hlutgerðar og kynferðisleg áreitni viðgengst of víða. Sífellt ber meira á aldursfordómum í garð kvenna. Konur eru líklegri til að vinna hlutastörf, taka langt fæðingarorlof eða hverfa af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum.

Mörg ný málefni hafa komist á dagskrá í jafnréttisbaráttunni, svo sem ofbeldi gegn konum og samtvinnun misréttis. Margvísleg lög hafa verið sett til að tryggja jafnrétti kynjanna, en lagasetningin ein dugar ekki til að breyta þeirri menningu sem ríkir í samfélaginu. Enn er því verk að vinna.

Á slíkum tímum er samstaða sterkasta vopnið. Konur og karlar sem styðja og vinna að jafnrétti kynjanna þurfa að halda vöku sinni, standa saman og sækja fram.  Við verðum að útrýma launamisrétti og tryggja jafnrétti kvenna og karla til starfa. Við þurfum að tryggja stöðu og bæta kjör kvenna í hvívetna óháð fötlun, aldri, búsetu, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund og lífsskoðun. Við þurfum að lengja og bæta fæðingarorlofið, vinna gegn kynskiptu náms- og starfsvali og breyta heftandi staðalmyndum kynjanna. Við verðum að auka völd kvenna í atvinnulífinu og í stjórnmálum og fjölga konum í Hæstarétti. Við þurfum að uppræta ofbeldi gegn konum, sem hefur hamlandi áhrif á samfélagsþátttöku kvenna. Við þurfum að tryggja kjarajafnrétti strax!

Kröfur okkar eru:

  • Jöfn kjör og jöfn laun STRAX
  • Tryggjum stöðu kvenna og bætum kjör kvenna í hvívetna óháð fötlun, aldri, búsetu, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund og lífsskoðun
  • Lengjum og bætum fæðingarorlofskerfið
  • Upprætum staðalmyndir kynjanna og kynskiptingu vinnumarkaðar
  • Aukum völd kvenna í atvinnulífinu og í stjórnmálum og fjölgum konum í Hæstarétti
  • Upprætum ofbeldi gegn konum
SFR dætur

Samstaða á Austurvelli og víða um land

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX!

Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir stýra fundi. Kynslóðir kvenna ávarpa fundinn, Guðrún Ágústsdóttir einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM, Una Torfadóttir ungur femínisti og Justyna Grosel blaðamaður.

Fram koma hljómsveitin Eva, Brynhildur Björnsdóttir söngkona og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, og Ellen Kristjánsdóttir og dætur. Lóa Bergsveinsdóttir stýrir takti.

Baráttufundir eru einnig haldnir á Akureyri, Bolungarvík, Egilsstöðum, Grundarfirði, Hellu, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Neskaupstað, Patreksfirði, Sauðárkróki og Þorlákshöfn.

***

Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Kvennafrí í Borgarnesi

Við hjá Stéttarfélagi Vesturlands ætlum að taka þátt með því að leggja niður störf og opna húsið okkar fyrir öðrum sem gera slíkt hið sama. Allir velkomnir!

Meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9-17.

Baráttufundurinn verður sendur út í gegnum Facebook-síðuna www.facebook.com/kvennafri. Þar er jafnframt að finna nánari upplýsingar.

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn  árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Launamisrétti, vanmat á störfum kvenna, skortur á virðingu og valdaleysi var konum efst í huga. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag.

Íslenskar konur hafa sannarlega sýnt svo eftir er tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið

Samstöðufundur á Sólveigartorgi á Seyðisfirði

Skólafólk á Seyðisfirði ætlar að hittast á Sólveigartorgi klukkan 15 mánudaginn 24. október, á Kvennafrídaginn, til að taka afstöðu með kjarajafnrétti. Seyðfirðingum er boðið að fjölmenna líka. Fundurinn er fyrst og fremst táknrænn gjörningur án ræðuhalda og eru konur og karlar hvött til að mæta.

Til gamans má hér lesa um vígsluna á Sólveigartorgi, sem var þann 19. júní 2015, í tilefni af 100 ára kosningaafmælis kvenna.

Konur á Vopnafirði! Göngum út á kvennafrídegi

Konur á Vopnafirði!

Göngum út í dag, á kvennafrídaginn!

Hittumst kl. 14:38 í Kauptúnskaffi!

Konur ganga fylktu liði í Sauðárkróki á kvennafrídegi

Í tilefni Kvennafrídagsins nk. mánudag, 24. október, ætla kvenkyns nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Norðurland vestra á Sauðárkróki að leggja niður vinnu klukkan 14:38 og hvetja aðrar konur til að gera hið sama. Áætlað er að safnast saman við grjótvörðuna milli bóknáms-, og verknámshúsa skólans og ganga fylktu liði í bæinn.

Að sögn Ingileifar Oddsdóttur skólameistara FNV verður gengið að Kirkjutorginu og til baka og endað í heimavist skólans þar sem boðið verður upp á kaffi og „meððí. „Ég skora á allar konur að leggja niður vinnu og eiga með okkur góða stund,“ segir Ingileif.

Samstöðufundur á Heimsenda, Patreksfirði

Konur!

Vissuð þið að:

Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.

Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Þjóðgerður ætlar að bjóða konum í Vesturbyggð upp á kaffi, vöfflur og kvennasamstöðu á Heimsenda 24. október kl. 15.00

Samstöðufundur á Silfurtorgi á Ísafirði!

Konur!

Leggjum niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkjum liði á samstöðufund á Silfurtorgi á Ísafirði kl. 15:00.

Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Ég þori, get og vil!

#kvennafrí #jöfnkjör

Fundurinn á Facebook hér.

Konur á Egilsstöðum, hittumst í Tjarnargarðinum!

Konur! Höldum upp á kvennafrídaginn á Egilsstöðum.

Við hittumst í Tjarnargarðinum klukkan 15 og hlustum á ræðu/r, syngjum, tölum saman.

Fundurinn á Facebook hér!