Konur vinna ókeypis eftir kl. 14:48 24. október 2017!
Í dag er 24. október 2017, en konur á Íslandi gengu fyrst út þann dag árið 1975 til að mótmæla mun á kjörum kvenna og karla, undir yfirskriftinni Kvennafrí. Konur gengu einnig út árið 1985, 2005, 2010 og 2016.
Hagstofa Íslands birti í dag nýjustu tölur um launamun kynjanna sem ná yfir árið 2016. Launamunur milli kvenna og karla hefur dregist saman síðustu árin en er enn óásættanlega hár. Meðalatvinnutekjur kvenna árið 2016 voru 72,5% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 27,5% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 48 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.
Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:48 í dag.
Árið 2005 konur gengu í tugþúsunda tali út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Og árið 2016 gengu konur út klukkan 14:38. Launamunur milli kvenna og karla hefur hefur samkvæmt þessu dregist meira saman síðastliðin tvö ár samanborið við áratuginn á undan.
Þó þokumst við alltof hægt áfram í átt til kjarajafnréttis. Konur í dag vinna ókeypis eftir kl. 14:48. Við höfum grætt fjörutíu mínútur á tólf árum. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í tæplega 35 ár eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2052! Það er óásættanlegt!
Krafan frá 2016 er óbreytt. Við gerum við þá kröfu að tryggt verði KJARAJAFNRÉTTI STRAX! Við köllum eftir afstöðu allra flokka sem bjóða sig fram til Alþingis til þess hvernig þeir ætla að tryggja jöfn laun og jöfn kjör!