Yfirlýsing útifundar við Arnarhól 2023

Kvennaverkfall 24. október 2023

Við krefjumst leiðréttingar á vanmati „svokallaðra“ kvennastarfa!
– Að atvinnurekendur hætti að veita sér afslátt á launum kvenna og kvára!
– Við krefjumst sértækra aðgerða til þess að leiðrétta kjör þeirra kvenna og kvára sem lægstar tekjur hafa, því engin á að þurfa að lifa við fátækt!

Við krefjumst þess að launamisrétti og mismunun verði útrýmt!
– Að konur og kvár geti lifað af launum sínum og fái tækifæri til að þróast í starfi til jafns við karla!
– Að fatlaðar konur og kvár hafi tækifæri til atvinnuþátttöku til að geta bætt kjör sín!
– Að menntun og hæfni kvenna af erlendum uppruna sé metin að verðleikum!
– Að konum og kvárum verði ekki lengur refsað fjárhagslega fyrir þá ólaunuðu umönnunarábyrgð sem þau axla yfir ævina og gjalda fyrir þegar á lífeyrisaldur er komið.
– Að gert verði samfélagslegt átak til að útrýma fordómum gegn fólki með fötlun, hinsegin fólki, fólki af erlendum uppruna og öðrum jaðarhópum.

Við krefjumst þess að karlar taki ábyrgð á við konur og kvár!
– Taki ábyrgð á ólaunuðum heimilisstörfum og við umönnun fjölskyldumeðlima!
– Taki ábyrgð á ólaunaðri þriðju vaktinni!

Við krefjumst þess að konur og kvár séu ekki í fjárhagslegum fjötrum ofbeldismanna!
– Að konur og kvár fái stuðning við að byggja upp fjárhagslegt sjálfstæði eftir að hafa lifað af kynbundið fjárhagslegt ofbeldi!
– Við krefjumst réttlætis og réttarbóta fyrir þolendur kynferðislegs og kynbundins ofbeldis!
– Að ofbeldismenn sæti ábyrgð og kynfrelsi sé virt!
– Að konur og kvár njóti öryggis og frelsi frá ofbeldi og áreitni í vinnunni, heima og í almannarými!
– Að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt!

VIÐ KREFJUMST ÞESS AÐ STJÓRNMÁLIN GERI KRÖFUR KVENNAVERKFALLS AÐ FORGANGSMÁLI — STRAX!

VIÐ KREFJUMST AÐGERÐA OG BREYTINGA — NÚNA!