3 ljóð eftir Karitas Mörtudóttur Bjarkadóttur, flutt á Arnarhóli 24. október 2018

ekki of

ekki nóg.
ekki nógu dugleg
ekki nógu hávær
ekki nógu ákveðin
ekki nógu, þú.

allt of mikið
allt of starfsdrifinn
allt of hávær
allt of ákveðin
allt of mikið, ég.

þegar ég reyni að vera nóg,
er ég of mikið.
tek of mikið frá þér,
plássið þitt,
frelsi þitt til að kyngera mig,
rétt þinn til að brjóta á mínum,
tilvist mín skerðir þína.

þegar ég reyni að vera ekki of mikið
er ég ekki nóg.
gef of mikið eftir,
plássið mitt,
frelsi mitt til að standa með sjálfri mér
rétt minn til að eiga rétt
tilvist mín skerðir mína.

tólf til tuttuguogníu

samkvæmt nýjustu tölum
verða laun kvenna ekki jöfn karla
fyrr en árið tvöþúsundfjögurtíuogsjö.

samkvæmt nýjustu tölum
mun heimurinn farast í hamförum
ekki seinna en árið tvöþúsundogþrjátíu.

okkur hefur í alvörunni tekist
að eyða heillri plánetu
á styttri tíma
en okkur hefur tekist
að viðurkenna konur
sem menn.

tími til kominn

stundin er runnin upp.
heyri ég í útvarpinu,
sjónvarpinu,
það bergmálar

stundin er runnin upp.
heyrði mamma mín í útvarpinu,
sjónvarpinu, nema á fimmtudögum,
og það bergmálaði.

hún er runnin upp núna,
þegar við rjúkum á arnarhól,
krefjumst betri kjara
og eyðingu ofbeldis.

hún var runnin upp árið 1975,
þegar þær ruku á lækjartorg,
kröfðust betri kjara,
og enginn vissi um ofbeldið