Kæru konur,
Í byrjun september hittust konur frá fjölmörgum samtökum kvenna og launafólks ákváðu að boða til Kvennafrís þann 24. október næstkomandi!
Slagorð Kvennafrís 2018 er „Breytum ekki konum, breytum samfélaginu“.
Fundurinn sem við skipuleggjum nú verður haldinn á Arnarhóli – en augljóst er að ekki hafa konur alls staðar á landinu kost á því að koma þangað. Við stöndum allar saman í þessari baráttu og það væri mikils virði fyrir okkur allar ef við gætum stillt saman strengi í undirbúningnum og sameinast þótt við séum staddar víðsvegar um landið.
Þegar er byrjað að skipuleggja fundi víðsvegar um landið og er upplýsingum um tengiliði settar strax á Kvennafrí.is.
Ef þið hafið hug á að taka þátt – endilega látið mig vita í netfang kvennafri2018[@]gmail.com. Þá getum við sett upplýsingarnar um samstöðu kvenna um land allt inn á vefsíðu kvennafrísins og á samfélagsmiðla.
Einnig, munið að senda okkur krækjur í Facebookviðburðinn ykkar og að taka myndir af fundinum ykkar og senda okkur, svo við getum sett það í skýrslu kvennafrís og á vefsíðuna og samfélagsmiðla 🙂
Við getum útvegað:
- Plaköt! Plakötin eru þegar komin í flest sveitarfélög, en þeim var dreift á Landsþingi Kvenfélagasambandsins og bunkar fóru í heimabyggð þinggesta. Hafið samband við okkur svo við getum tengt ykkur við konurnar í ykkar heimabyggð sem eru með plaköt. Við erum einnig með prentvæna útgáfu fyrir skrifstofuprentara, hlaðið niður hér!
- Mynd fyrir viðburðasíðu („event“) á Facebook. Hlaðið niður hér. (Munið að senda okkur krækjuna!)
- Prófílmyndir fyrir samfélagsmiðla, tvær útgáfur, hér og hér.
- Ákveðið var að fá kvennakór til að syngja „Áfram stelpur“ – baráttulag dagsins – í lok fundarins og sú hugmynd kom upp að fá kvennakóra um land allt til að syngja það á sama tíma – því ekki skortir kvennakóra á Íslandi og fátt er betri birtingarmynd samvinnu og samstöðu kvenna en einmitt kórinn. Við getum sent ykkur nótur að laginu.
- Það er mikilvægt að ná til kvenna af erlendum uppruna þar sem þær hafa oft ekki sterkt bakland og eru viðkvæmari fyrir hvers kyns misrétti og valdbeitingu og sýna þeim að þær standi ekki einar um leið og við berjumst fyrir bættum kjörum þeirra. Vefur kvennafrís er því á mörgum tungumálum, sem konur í W.O.M.E.N. in Iceland – samtökum kvenna af erlendum uppruna hafa staðið að. Aðalútgáfa vefsins er á íslensku, ensku og pólsku, en einnig eru minni útgáfur af vefnum á albönsku, frönsku, grísku, ítölsku, kínversku, portúgölsku, serbnesku, spænsku og tékknesku. Til stendur að þýða kröfurnar sem settar verða fram á fundinum á ensku og pólsku.
Verið í bandi!
Fyrir hönd undirbúningsnefndar Kvennafrís 2018,
Maríanna Clara Lúthersdóttir verkefnastýra Kvennafrís
kvennafri2018(@)gmail.com, s: 6952702