Á baráttufundi á Arnarhóli 24. október 2018 fluttu leikkonurnar Aldís Amah Hamilton, Ragnheiður Steindórsdóttir og Esther Talía Casey örverk eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur. Þetta er einræður þriggja starfandi kvenna frá mismunandi tímum á Íslandi: vinnukona á 19. öldinni, verkakona sem ákveður að fara í gönguna 1975 og kona í nútímanum, af erlendu bergi brotin.
Einræðurnar eru byggðar á sögulegum heimildum og frásögnum kvenna í #MeToo hópum veturinn 2017–2018.
Vinnukona frá 19. öld
Ég hef verið vinnukona í tvö ár. Ég vinn alla daga ársins, meira að segja sunnudaga. Ég veit af öðrum sem fá frí á fimmtudögum eftir hádegi, en það hefur ekki tíðkast hér á bæ. Ég get þó brugðið mér bæjarleið stöku sinnum, ásamt húsfrúnni. Ég á þriggja ára gamla dóttur, sem býr hjá foreldrum mínum. Ég hafði ekki völ á að taka hana með mér, því ég vinn að jafnaði frá klukkan sex á morgnana til miðnættis.
Ég vakna fyrst á bænum og sofna síðust, allt árið um kring, en ólíkt er eftir árstíðum hvaða verkum ég sinni og sum eru meira lýjandi en önnur. Mótekjan á vorin er einna strembnust og engjaslátturinn um sumarið sömuleiðis, því það er kalt verk og vott og leiðin heim með hrúgur í fanginu er þvælin og þung. Mest er þó volkið og vosbúðin sem hlýst af vambaþvottinum í ísköldum sjónum í haustkuldanum. Eftir það strit fékk ég eitt sinn lungnabólgu, háan hita og var með óráði af kvölum. Húsbóndi minn sleppti mér þá við utanhússverkin og mátti ég í staðinn steikja brauð, prjóna og sulta. Slæmt þótti mér samt að hann skyldi hirða sem refsingu einu veraldlegu eigur mínar, reiðtygin frá honum föður mínum.
Í vistinni læri ég ýmis nytsöm störf. Einn daginn mun ég reka mitt eigið heimili og bý þá að því að kunna heyskap, skepnuhald, þvott, eldamennsku, bakstur og sláturgerð. Eitt og annað mætti þó betur fara í þessu starfi, aðallega kaupið. Ég veit það fyrir víst að vinnumaðurinn fær 75 aura á dag á meðan ég fæ aðeins 60. Hann fær auk þess meira fæði og fóður fyrir kindina sína, skó og önnur fríðindi sem ég þekki ekki. Hann fær frí á sunnudögum og tek ég jafnan að mér skyldur hans, auk þess sem það er daglegt brauð að ég stjani við hann þegar mínum vinnudegi er lokið, taki hann úr blautum fötum og skóm og sjái til þess að allt sé þurrt að morgni. Hann krefst þess stundum af mér að ég þerri hann sömuleiðis eftir stritið. Eitt sinn kvartaði ég við húsbónda minn yfir þessu og sagðist ekki kunna við að þerra líkama manns sem ég væri ekki gift. Þá svaraði hann að enginn maður myndi líta við konu sem ekki kynni ekki til verka á heimilinu, og að þetta teldist til góðra og gildra heimilisverka, að þjónusta menn. Eftir þetta bættist nýtt verk við vinnuskyldu mína, og grét ég í hljóði hverja nótt eftir að hann lauk sér af við mig. Ég lærði fljótt að hugsa um annað á meðan hann puðaði, að anda með munninum svo ég fyndi ekki svitalyktina af honum og gera mig alla lina og opna því þá var þetta ekki eins vont. Nú er þetta komið upp í vana, eins og flest annað. Ég veit líka að ég verð ekki lengi hér.
Þegar ég ligg uppi í rúmi á kvöldin læt ég hugann reika. Ég harma það að geta ekki lagt fyrir og séð fyrir dóttur minni og að þurfa nú að safna mér fyrir nýjum reiðtygjum. Mig dreymir um að kynnast manni og verða ástfangin, fá að stjórna mér sjálf, fá dóttur mína aftur til mín, eignast fleiri börn og hver veit nema að ég eignist mína eigin vinnukonu.
Verkakona sem ákveður að fara í gönguna árið 1975
Ég hef unnið við láglaunastörf alla mína tíð. Ég hrökklaðist úr landsprófi ólétt, tvítug var ég komin með fjögur börn, og hið yngsta var rétt mánaðargamalt þegar pabbi þeirra drukknaði. Hef ég verið einstæð móðir allar götur síðan. Einu störfin sem buðust konu eins og mér voru vist, verksmiðjustörf eða frystihúsin. Ég prófaði vistina, hjá heldri fjölskyldu á Tjarnargötunni, en það var meiri þrældómurinn. Fólk segir stundum „Svona lagað skeður bara í útlöndum“, en það er ekki satt – eymdin, hún er líka hér.
Lengi vann ég hálfan vinnudag svo ég gæti komið börnunum í skólann, fékk hjálp við að fylgja þeim heim úr skóla og var svo komin heim í tæka tíð til að elda síðbúinn kvöldmat og hátta börnin. Launin voru skelfing og ég man að ég horfði til hverrar krónu og keypti aldrei óþarfa – en þetta var þungbært barnanna vegna – því börn bera sig saman við aðra og vilja hafa það gott, fylgja tískunni. Guði sé lof fyrir mæðralaunin á þessum tíma. Þegar elsta barnið náði 16 ára aldri sá ég hvað ég missti drjúgan hluta ráðstöfunartekna minna.
Síðastliðin tuttugu ár hef ég unnið í fiskiðjuveri úti á Granda. Ég fæ 20.000 krónur á viku fyrir erfiða vinnu sem knúin er áfram af andstyggilegu bónuskerfi. Ég bý í leiguíbúð sem ég greiði 50.000 krónur á mánuði fyrir, og launin rétt duga fyrir leigunni. Launin mættu í raun vera í það minnsta helmingi hærri. En aldrei kvartar maður, af sínum innrætta þrælsótta. Misréttið blasir samt við mér hvern dag – ég vinn bókstaflega við sama borð og maður sem er í hærri launaflokki en ég, þrátt fyrir að við snyrtum og pökkum sama fisk.
Það var ekki fyrr en ég fór á fund hjá Rauðsokkuhreyfingunni að ég fór virkilega að leiða hugann að þessu misrétti og vanmati á störfum kvenna. Ég hef orðið þess vör að sumir karlmenn óttast að konur í dag hafi andstyggð á karlmönnum og vilji í hefndarhug kyrrsetja þá við eldhússtörf eða barnaumönnun. Ekkert er þó fjær sannleikanum, við viljum bara jafnrétti og virðingu.
Þann 24. október næstkomandi munu vonandi sem flestar konur landsins leggja niður störf sín. Ákveðið var að kalla þetta „kvennafrí“ en ekki „kvennaverkfall“, því hið síðarnefnda fælir mögulega sumar konur frá boðskap okkar – þeim þykir það of herskátt og of kommúnískt. Ég viðurkenni að nýja orðið er bitlausara en það nær breiðari samstöðu.
Frá því að sögur hófust hefur karlmaðurinn verið við völd og konan hefur sofið á verðinum. Nú er hún að vakna. Við erum að sjá það betur og betur að við megum ekki láta fara svona með okkur. Við erum að sjá það betur og betur að við getum miklu meira, bara ef við þorum og styðjum hver aðra. Með mannúðina í öndvegi geta konur tekið völdin til jafns við menn og vísað græðgi og illsku á dyr. Ég óska þess að ungar konur framtíðarinnar búi við betri kjör og njóti meiri virðingar í starfi en konur af minni kynslóð. Ég óska þess að allar konur framtíðarinnar sameinist og skeri upp herör gegn forneskjulegum hugmyndum samfélagsins um hlutverk þeirra. Ég trúi því að eftir tíu ár munum við minnast þessa árs með þakklæti og sjá renna upp þá stund sem við aðeins sjáum í hyllingum í dag. Stund jafnrétts og friðar.
Kona í nútímanum, af erlendu bergi brotin
Ég kom til Íslands fyrir 6 árum og byrjaði að vinna sem aupair á bóndabæ og átti aðallega að sjá um börnin og smá eldamennsku, en fyrir utan það var ég látin þvo þvott, þrífa öll húsin og fjósið, mjólka kýrnar og sjá um hestana fyrir heilar 15.000 kr. á viku. Ég fékk aldrei frí, ekki einu sinni á kvöldin eða um helgar og einn daginn veiktist ég og þá var ég rekin.
Síðan hef ég unnið í fiski og nú vinn ég sem herbergisþerna á hóteli. Þegar ég byrjaði vorum við sex þernur en nú erum við bara fjórar, þótt herbergin séu jafnmörg. Yfirmaðurinn minn sagði að það væri vegna þess að útlenskar konur eins og ég væru svo duglegar – ég ætti að líta á það sem hrós. Ég fæ 30.000 krónum minna á mánuði en pólsk kona sem ég vinn með, en hún talar íslensku. En þar sem ég veit til þess að fólk hafi verið rekið þegar það spyr út í launamismun tek ég ekki áhættuna. Nú á ég börn og maðurinn minn er ekki með há laun.
Starfsöryggið er ekkert. Ég mæti oft veik til vinnu, og þegar ég er frá vegna veikinda barna minna er það dregið af laununum eða ég látin vinna það upp með ógreiddri yfirvinnu. Í heimalandi mínu var ég kennari og hef 5 ára menntun að baki, en ég er ekki með íslensk kennsluréttindi og tala takmarkaða íslensku. Fyrir vikið læri ég ekki hluti sem gera mér kleift að komast ofar í vinnunni, og þess vegna er ég alltaf á botninum. Ég held að margir vilji í raun ekki að útlendingar læri íslensku, þessi lægri staða hentar þeim vel.
Ég veit að stéttarfélagið mitt getur hjálpað mér og jafnvel borgað fyrir íslenskutíma fyrir mig, en yfirmaður minn leyfir mér aldrei að komast frá vinnu til að sækja námskeið.
Einu sinni var ég að þrífa og yfirmaður minn birtist og var búinn að drekka mikið áfengi. Hann lokaði og læsti hurðinni að herberginu, hvíslaði að mér að ég væri með svo fallegt svart hár og hélt svo höndum sínum fast utan um mig og nauðgaði mér. Nauðgun er ekki nógu sterkt orð á íslensku, finnst mér. „Rape“ er sterkara. Ég skalf og grét á meðan ég heyrði í hinum þernunum frammi. Þegar hann var búinn tók hann mig hálstaki og sagði að ég mætti ekki segja neinum frá því sem gerðist, annars yrði ég rekin.
Ég sagði samt manninum mínum frá þessu, mörgum mánuðum seinna. Hann reiddist bara og sagði að ég hefði gefið honum undir fótinn. Mig langar að fara frá honum, en þá verð ég örugglega send úr landi og ég veit ekki hvað verður um börnin mín.
Ég hélt að þetta væri land jafnréttis, en það á greinilega ekki við um alla. Konum eins og mér er haldið niðri og á jaðrinum, og þá verða til meiri fordómar og færri tækifæri fyrir okkur og útlenskar konur verða alltaf áfram staðalmyndir í huga fólks. Ísland þarf að taka sig á og laga fordómana í samfélaginu.