Jafnréttisparadísin
Í það minnsta 40% kvenna verða fyrir kynbundnu og kynferðilegu ofbeldi á lífsleiðinni. Fatlaðar konur, konur af erlendum uppruna og kvár eru í mun meiri hættu en aðrir að verða fyrir ofbeldi. Kallarðu þetta jafnrétti?
Óvænt útgjöld upp á 80.000 er staða sem 7 af hverjum 10 einstæðum mæðrum geta ekki mætt. Þetta er veruleiki sem ég þekki sjálf úr minni æsku. Kallarðu þetta jafnrétti?
Fatlaðar konur eru 10 sinnum líklegri til þess að vera beittar ofbeldi en aðrar konur og það getur verið erfiðara fyrir þær að segja frá eða sækja sér nauðsynlega aðstoð út af viðmóti og aðgengi. Kallarðu þetta jafnrétti?
Konur af erlendum uppruna vinna lengri vinnudaga, búa við minna starfsöryggi og lægri laun en aðrar konur, og eru líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi. Kallarðu þetta jafnrétti?
Einhverfar konur eiga að gera allt til þess að fela einhverfuna sína. Meðan einhverfir karlar mega vera allt og allskonar er hlutverk kvenna fyrst og fremst að láta lítið fyrir sér fara. Kallarðu þetta jafnrétti?
Ég vinn í kvennastétt í tveimur, stundum þremur vinnum og ber ábyrgð á vellíðan og valdeflingu einstaklinga sem ég er að sinna. Samt hef ég ekki nægan tíma til að hvíla mig og valdefla sjálfa mig. Kallarðu þetta jafnrétti?
Eftir að ég kom út sem kona, þá þarf ég stundum að leika karlmann til að fá sömu þjónustu og virðingu og ég fékk alltaf áður. Kallarðu þetta jafnrétti?
Nauðgunarmenning er svo rótgróin í íslensku samfélagi að konur og kvár segjast oft vera ‘heppin’ að hafa bara orðið fyrir áreitni en ekki alvarlegu ofbeldi. Kallarðu þetta jafnrétti?
Kvár eru jaðarsett í íslensku samfélagi. Hatursfullir einstaklingar þagga niður í baráttumálum kvára með því að kalla okkur ímyndunarveik, athyglissjúk og geðveik. Kallarðu þetta jafnrétti?
Konur og börn þeirra eru fórnarlömb í vopnuðum átökum. Samt hafa konur aðeins verið 13% þeirra sem hafa tekið þátt í friðarviðræðum á síðustu 30 árum og þær eru aðeins 6% þeirra sem hafa undirritað friðarsamninga. Kallarðu þetta jafnrétti?
Ég er kona af erlendum uppruna og mér er mismunað á hverjum einasta degi – af vinnuveitendum því ég er kona OG útlendingur, af heilbrigðiskerfinu því ég er kona OG útlendingur, af íslensku samfélagi því ég er kona OG útlendingur. Kæru konur og kvár sem voruð svo heppin að fæðast í þessu landi – ef glerþakið er yfir ykkur, þá er okkur, konur af erlendum uppruna, borið til grafar í glerkistu. Kallið þið þetta helvítis jafnrétti?
Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. Kallarðu þetta jafnrétti?