En hvað ef vinnuveitandi minn leyfir mér ekki að fara?
Sögulega hafa atvinnurekendur stutt, eða að minnsta kosti ekki staðið í vegi fyrir, að konur leggi niður störf á Kvennafrídeginum. Atvinnurekendur hafa nægan tíma til að haga skipulagi sínu þannig að konur og kynsegin fólk þurfi ekki að mæta til vinnu 24. október. Í sumum tilfellum geta atvinnurekendur verið andsnúnir þátttöku eða gefið til kynna að dregið verði af launum starfsfólks sem ekki mætir til vinnu vegna verkfallsins. Í slíkum aðstæðum er það val hvers og eins hvort þau treysti sér til að leggja niður störf og hætta á afleiðingar á sínum vinnustað. Hægt er að senda ábendingar um atvinnurekendur sem hamla þátttöku kvenna og kvára í verkfallinu hér.
Ég er karlmaður. Á ég líka að taka þátt?
Karlmenn leggja ekki niður störf þann 24. október en þeir geta sýnt stuðning sinn í verki með því að taka á sig aukna ábyrgð heima fyrir t.d. við umönnun barna og í vinnu með því að taka að sér verkefni eða vaktir til að liðka fyrir þátttöku samstarfskvenna og -kvára í verkfallinu. Líklegt er að einhverjir skólar verði óstarfhæfir þar sem meginuppistaða vinnuaflsins verður í verkfalli, og því munu feður þurfa að gera ráðstafanir þennan dag.