Kvennafrí 1975

Kvennafrí 1975. Mynd: Ari Kárason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði áratuginn 1975 til 1985 málefnum kvenna. Í tilefni þess tóku kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög sig saman 1975 og skipulögðu dag þar sem konur lögðuniður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags kvenna á Íslandi. Var 24. október valinn, en það er dagur Sameinuðu þjóðanna. Talið er að 90% kvenna á Íslandi hafi lagt niður vinnu þann dag og um 25.000 konur söfnuðust saman á útifundi á Lækjartorgi í einum fjölmennasta útifundi Íslandssögunnar. Konur söfnuðust einnig saman víða um land til að leggja áherslur á mikilvægt vinnuframlags kvenna. Kvennafrídagurinn 1975 vakti gríðarlega athygli erlendis og hefur öðlast sess í sögu alþjóðlegrar kvenréttindabaráttu.

Stikla eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur. RÚV.

Kvennafrí 1985

Kvennafrí 1985. Mynd: Gunnar V. Andrésson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Árið 1985 mörkuðu íslensk kvennasamtök og verkalýðshreyfingin endalok áratugs kvenna með því að boða aftur samstöðufund á Lækjartorgi þann 24. október undir yfirskriftinni „Konur stöndum saman“. Konur voru ekki sérstaklega hvattar til að leggja niður vinnu, en fundurinn var boðaður kl. 14:00 á meðan vinnutíma stóð. Talið er að um 18.000 konur hafi sótt þann samstöðufund.

Kvennafrí 2005

Kvennafrí 2005. Mynd: Guðjón R. Ágústsson / ASÍ

Árið 2005 var haldið upp á kvennafrí í þriðja skipti þann 24. október, undir yfirskriftinni „Konur höfum hátt“. Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:08 og kröfuganga boðuð frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg. Var tímasetning verkfallsins reiknuð út frá mun á heildarlaunum kynjanna. Um 50.000 manns söfnuðust saman í miðbænum á meðan útifundinum stóð og fundir voru einnig haldnir víða um land.

Kvennafrí 2010

Kvennafrí 2010. Mynd: Kvenfélagasamband Íslands

Árið 2010 var haldið upp á kvennafrí í fjórða sinn, og konur þá hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:25 þann 25. október. Var boðað til kvennafrís einum degi seinna en áður hafði verið þar sem 24. október bar upp á sunnudag. Tímasetning verkfallsins var reiknuð út frá þeirri staðreynd að konur höfðu 65,65% af heildarlaunum karla. Að fundinum stóðu regnhlífarsamtök kvenna, Skotturnar, og einnig áttu samtök launafólks aðild að fundinum. Gengið var í kröfugöngu frá Skólavörðuholti niður að Arnarhóli þar sem haldinn var fundur undir yfirskriftinni „Já! – ég þori, get og vil“ og var sjónum fundarins beint að kynferðisofbeldi. Áætlað er að um 50.000 manns hafi sótt fundinn.

Stikla eftir Höllu Kristínu Eiríksdóttur. Tónlist eftir Grýlurnar.

Kvennafrí 2016

Kvennafrí 2016. Mynd: Arnþór Birkisson / BSRB

24. október 2016 var haldinn baráttufundur á Austurvelli undir yfirskriftinni „Kjarajafnrétti strax“. Að fundinum stóðu samtök launafólks og samtök kvenna á Íslandi. Samstöðufundir voru haldnir á 20 stöðum á landinu til viðbótar, Akureyri, Bolungarvík, Borgarnesi, Djúpavogi, Egilsstöðum, Grindavík, Grundarfirði, Hellu, Húsavík, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri, Neskaupstað, Patreksfirði, Reykjanesbæ, Sauðárkróki, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Vopnafirði og Ölfusi.

Hvatti fundurinn konur til að leggja niður vinnu kl. 14:38 og mótmæla þar með kjaramun kynjanna á Íslandi. Var þetta í fimmta skipti sem konur á Íslandi mótmæltu mun á launum og kjörum kynjanna með þessum hætti, en kvennafrí voru einnig boðuð 1975, 1985, 2005 og 2010.

Tímasetning fundarins 14:38 var reiknuð út frá upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Miðað var við tölur Hagstofunnar frá 2014, þar sem tölur frá 2015 birtust ekki fyrr en í nóvember 2016.

Meðalatvinnutekjur kvenna voru árið 2014 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Samkvæmt útreikningi eru konur því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna, hlutfall af 8 klukkustundum eru 5 klukkustundir 38 mínútur og ef vinnudagur hefst kl. 9:00, þá hætta konur að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt kl. 14:38.

Stikla eftir Leu Ævarsdóttur. Tónlist eftir Mammút.

***

Lesið meira um sögu Kvennafrísins á vef Kvennasögusafns Íslands.