Sagan

Kvennafrí 1975

Kvennafrí 1975. Mynd: Ari Kárason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði áratuginn 1975 til 1985 málefnum kvenna. Í tilefni þess tóku kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög sig saman 1975 og skipulögðu dag þar sem konur lögðuniður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags kvenna á Íslandi. Var 24. október valinn, en það er dagur Sameinuðu þjóðanna. Talið er að 90% kvenna á Íslandi hafi lagt niður vinnu þann dag og um 25.000 konur söfnuðust saman á útifundi á Lækjartorgi í einum fjölmennasta útifundi Íslandssögunnar. Konur söfnuðust einnig saman víða um land til að leggja áherslur á mikilvægt vinnuframlags kvenna. Kvennafrídagurinn 1975 vakti gríðarlega athygli erlendis og hefur öðlast sess í sögu alþjóðlegrar kvenréttindabaráttu.

Kvennafrí 1985

Kvennafrí 1985. Mynd: Gunnar V. Andrésson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Árið 1985 mörkuðu íslensk kvennasamtök og verkalýðshreyfingin endalok áratugs kvenna með því að boða aftur samstöðufund á Lækjartorgi þann 24. október undir yfirskriftinni „Konur stöndum saman“. Konur voru ekki sérstaklega hvattar til að leggja niður vinnu, en fundurinn var boðaður kl. 14:00 á meðan vinnutíma stóð. Talið er að um 18.000 konur hafi sótt þann samstöðufund.

Kvennafrí 2005

Kvennafrí 2005. Mynd: Guðjón R. Ágústsson / ASÍ

Árið 2005 var haldið upp á kvennafrí í þriðja skipti þann 24. október, undir yfirskriftinni „Konur höfum hátt“. Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:08 og kröfuganga boðuð frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg. Var tímasetning verkfallsins reiknuð út frá mun á heildarlaunum kynjanna. Um 50.000 manns söfnuðust saman í miðbænum á meðan útifundinum stóð og fundir voru einnig haldnir víða um land.

Kvennafrí 2010

Kvennafrí 2010. Mynd: Kvenfélagasamband Íslands

Árið 2010 var haldið upp á kvennafrí í fjórða sinn, og konur þá hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:25 þann 25. október. Var boðað til kvennafrís einum degi seinna en áður hafði verið þar sem 24. október bar upp á sunnudag. Tímasetning verkfallsins var reiknuð út frá þeirri staðreynd að konur höfðu 65,65% af heildarlaunum karla. Að fundinum stóðu regnhlífarsamtök kvenna, Skotturnar, og einnig áttu samtök launafólks aðild að fundinum. Gengið var í kröfugöngu frá Skólavörðuholti niður að Arnarhóli þar sem haldinn var fundur undir yfirskriftinni „Já! – ég þori, get og vil“ og var sjónum fundarins beint að kynferðisofbeldi. Áætlað er að um 50.000 manns hafi sótt fundinn.

Kvennafrí 2016

Kvennafrí 2016. Mynd: Arnþór Birkisson / BSRB

24. október 2016 var haldinn baráttufundur á Austurvelli undir yfirskriftinni „Kjarajafnrétti strax“. Að fundinum stóðu samtök launafólks og samtök kvenna á Íslandi. Samstöðufundir voru haldnir á 20 stöðum á landinu til viðbótar, Akureyri, Bolungarvík, Borgarnesi, Djúpavogi, Egilsstöðum, Grindavík, Grundarfirði, Hellu, Húsavík, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri, Neskaupstað, Patreksfirði, Reykjanesbæ, Sauðárkróki, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Vopnafirði og Ölfusi.

Hvatti fundurinn konur til að leggja niður vinnu kl. 14:38 og mótmæla þar með kjaramun kynjanna á Íslandi. Var þetta í fimmta skipti sem konur á Íslandi mótmæltu mun á launum og kjörum kynjanna með þessum hætti, en kvennafrí voru einnig boðuð 1975, 1985, 2005 og 2010.

Tímasetning fundarins 14:38 var reiknuð út frá upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Miðað var við tölur Hagstofunnar frá 2014, þar sem tölur frá 2015 birtust ekki fyrr en í nóvember 2016.

Meðalatvinnutekjur kvenna voru árið 2014 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Samkvæmt útreikningi eru konur því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna, hlutfall af 8 klukkustundum eru 5 klukkustundir 38 mínútur og ef vinnudagur hefst kl. 9:00, þá hætta konur að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt kl. 14:38.

***

Lesið meira um sögu Kvennafrísins á vef Kvennasögusafns Íslands.