Ólafía Jóhannsdóttir – Móðir Teresa norðursins
Félagsráðgjafafélag Íslands, í samvinnu við Hvítabandið, verður með Opið hús í Borgartúni 6, 4. hæð þar sem fjallað verður um sögu Ólafíu Jóhannsdóttur í máli og myndum. Ólafía fæddist 22. október 1863 og var frumkvöðull í margvíslegum skilningi á sviði jafnréttismála, menntamála og í velferðarþjónustu. Hún var sem dæmi fyrsta konan til að ljúka fjórða bekkjar prófi í Lærða skólanum. Fyrst íslensk kvenna til að sitja Þingvallarfund sem kjörinn fulltrúi kvenþjóðarinar með kjörbréf frá Hinu íslenska kvenfélagi. Endurminningar Ólafíu, frá Myrkri til ljóss, er tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu sem fyrsta sjálfsævisaga íslenskrar konu á prenti. Ólafía stofnaði Hvítabandið á Íslandi og flutti erindi víða bæði á Íslandi og erlendis. Hún er þjóðþekkt í Noregi fyrir störf sín í þágu kvenna og þeirra sem stóðu höllum fæti í samfélaginu og segja má að heimili hennar hafi verið Kvennaathvarf síns tíma.