Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur á Arnarhóli, 24. október 2018

Ágæta samkoma.

Í dag blásum við til baráttu. Og segjum hátt og skýrt, Áfram stelpur, því það er bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Þetta sýna niðurstöður ALþjóðaefnahagsráðsins fyrir árið 2017 og bakslagið mælist ekki síst á vinnumarkaðnum

Og þó Ísland tróni í efsta sæti á þessum lista, níunda árið í röð , þá gefur það okkur bara til kynna að staðan í jafnréttismálum í heiminum er slæm.

Að Ísland sé í fyrsta sæti á þessum lista er ekkert til að hrópa sérstaklega húrra fyrir.

Ekki þegar hver kvennastéttin á fætur annarri þarf á sama tíma að knýja fram með verkföllum sjálfsagðar umbætur í aðbúnaði og kjörum.

Ekki þegar launamisréttið er þannig að konur þurfa að vinna launalaust rúmar 2 klukkustundir á dag.

Og varla erum við í efsta sæti að því er varðar aðbúnað og kjör erlends vinnuafls, kvenna og karla, sem farið er með eins og þræla fyrr á öldum eins og sjónvarpið sýndi nýlega.

Þessi hræðilega staða minnir óþægilega á þann tíma á nítjándu og tuttugustu öldinni þegar húsbændur sendu vinnukonur sínar í aukavinnu út á vinnumarkaðinn og hirtu sjálfir launin sem þær fengu. Þetta er ljótur blettur á íslensku samfélagi sem verður að uppræta.

Og það er ekki bara erlent verkafólk sem verður fyrir launaþjófnaði.

Enn í dag, eftir meira en 100 ára baráttu fyrir launajafnrétti, var óleiðréttur launamunur samkvæmt Hagstofu 16.1% árið 2016. Þetta þýðir samkvæmt varfærnum útreikningum og miðað við 300 þúsund króna lágmarkslaun, að hver kona er hýrudregin af atvinnurekendum um sem svarar tæpum 700 þúsund kr. á ári.

Hvað er hægt að kalla þetta annað en þjófnað, oft af fátækum konum sem ná ekki endum saman til að brauðfæða börnin sín.

Og ef teknar eru allar konur á vinnumarkaði, þá eru þær samtals snuðaðar um tæpa 58 milljarða á hverju ári.

Til að setja þessa fjárhæð í samhengi, þá samsvarar þessi stuldur því að konur borgi kostnað sveitarfélaga af dagvistun allra barna á landinu ásamt kostnaði ríkisins við fæðingarorlofsgreiðslur. Þetta eigum við ekki að líða. Og ég segi:
Hafi þeir skömm fyrir sem stunda slíkan þjófnað.

Þeir atvinnurekendur sem hlunnfara konur með þessum hætti ættu að muna að hvergi í heiminum er atvinnuþátttaka kvenna jafn mikil og á Íslandi .
Hvergi í heiminum leggja konur meira fram til verðmætasköpunar en á Íslandi. Raunar halda þær uppi hagvextinum og lífskjörum í landinu á sama tíma og þær búa sjálfar við mikið vanmat í launum.

Krafan er því að þegar í stað fari fram endurmat á kvennastörfum í landinu ekki bara út frá launamun kynjanna heldur líka í ljósi þeirra miklu verðmætasköpunar sem þær skila þjóðarbúinu.

Engan þarf að undra að kulnun á vinnumarkaðnum sé að verða æ stærra vandamál- og ákall verkalýðshreyfingarinnar um styttingu vinnutímans og mannsæmandi kjör er orðið ærandi.

Hér vinnur fólk lengstan vinnudag í heimi –láglaunafólk býr við þær aðstæður að vinna langan vinnudag fyrir sultarlaunum, á hlaupum milli vinnustaða, skóla og frístundaheimila barna til að allt gangi upp.

Og hvað er til ráða. Samstaða kvenna, og aftur samstaða kvenna er lykilatriði eins og við sýnum hér í dag.

Munum það að körlum hefur ekki gefist alltof vel að stjórna heiminum. Því á að gefa konum tækifæri.

Leiðin til að breyta vinnumarkaðnum í þágu ekki bara kvenna heldur allrar fjölskyldunnar er styttri vinnuvika, fríar skólamáltíðir og ódýr dagvistun, sem brúar bilið milli 12 mánaða fæðingarorlofs og dagvistunar. Áfram stelpur, við höfum verk að vinna-

Látum ekki troða á sjálfsögðum rétti kvenna Hættum ekki fyrr en vinnuframlag kvenna er metið að verðleikum- og þjóðfélagið aðlagar sig betur að þörfum þeirra á vinnumarkaði.

Breytum þjóðfélaginu, við getum það, bara ef við viljum og þorum
Gleymum ekki að heimurinn er fátækari án áhrifa og vinnuframlags kvenna.