Konur lögðu niður vinnu miðvikudaginn 24. október 2018 klukkan 14:55 til að mótmæla kjaramisrétti, ofbeldi og áreitni á vinnustaði. Kjörorð kvennafrísins í ár voru: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.

#MeToo kvennafrí

Síðustu mánuði hafa sögur af áreitni og ofbeldi á vinnustað undir myllumerkinu #MeToo sýnt fram á að baráttan fyrir bættum kjörum á vinnumarkaði er ekki aðeins barátta fyrir betri launum, heldur einnig barátta fyrir bættum vinnuaðstæðum og öryggi á vinnustað. Við þurfum að þrýsta á stjórnvöld og atvinnurekendur um að efla aðgerðir til að koma í veg fyrir og bregðast við kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað. Tryggja verður að atvinnurekendur hafi vinnureglur og verkferla til að bregðast við ofbeldi og misrétti þegar það á sér stað.

Þetta var í sjötta sinn sem að konur á Íslandi lögðu niður vinnu til að mótmæla kynbundnu misrétti. Konur gengu fyrst út 1975, svo 1985, 2005, 2010 og 2016. Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og baráttu kvenna fyrir jöfnum kjörum höfum við ekki enn náð jafnrétti á Íslandi.

Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu í dag kl. 14:55, á þeirri mínútu sem þær hætta að fá greitt fyrir vinnu sína.

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru konur með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9 til 17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár!

Baráttufundir um allt land

Baráttufundir voru skipulagðir á í það minnsta 16 stöðum á landinu.  Fundir voru haldnir á Akureyri, Bifröst, Borgarnesi, Dalvík, Grundarfirði, Ísafirði, Mývatnssveit, Neskaupstað, Ólafsvík, Patreksfirði, Reyðarfirði, Reykjavík, Selfossi, Skaftárhreppi, Skagaströnd og Varmahlíð.

Stærsti fundurinn var á Arnarhóli í Reykjavík, þar sem fjórar konur ávörpuðu fundinn, Áslaug Thelma Einarsdóttir baráttukona, Claudie Wilson lögfræðingur, Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

Hægt er að lesa ræður Áslaugar, Claudie, Jóhönnu og Sólveigar hér: http://kvennafri.is/raedur-a-arnarholi.

Fundarstjórar voru Ilmur Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir. Á fundinum komu einnig fram Reykjavíkurdætur, Vox feminae kórinn, Kvennakórinn Kötlurnar, Léttsveitin, Múltíkúltí kórinn, Aldís Amah Hamilton, Ragnheiður Steindórsdóttir og Esther Talía Casey fluttu örverk eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir flutti ljóð.

Yfirlýsing kvennafrís 2018

Á samstöðufundum um allt land voru lesnar upp yfirlýsing kvenna á Íslandi á kvennafrídegi 2018, sem krafðist þess að grundvallarmannréttindi allra væru virt á Íslandi, styttri vinnuviku, lengra fæðingarorlofs og öruggrar dagvistunar, aðgerða til að auka hlut kvenna í áhrifa- og valdastöðum, að kvennastörf séu metin að verðleikum bæði í launum og virðingu, að stjórnvöld setji kynjajafnrétti og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi í forgang og sýni stórhug í að taka ákvarðanir til að jafna stöðu kynja og tryggja að fjölbreytileiki samfélagsins fái að njóta sín, sem og jafnréttis- og kynjafræðikennslu á öllum skólastigum.

Konur krefjast þess að fá að vinna vinnuna sína án áreitni, ofbeldis og mismununar, og að stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir og taki af festu á kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði. Og við krefjumst þess að hlustað sé á þolendur og tekið sé mark á sögum þeirra. Konur sem upplifa ofbeldi, áreitni, niðurlægingu og smánun eru ekki lítill hópur heldur allar konur samfélagsins úr öllum kimum samfélagsins. Konur sem tilheyra mismunandi minnihlutahópum upplifa mismunandi birtingarmyndir ofbeldis og áreitni sem við þurfum að taka tillit til.

Hægt er að lesa kröfur kvennafrísins í fullri lengd hér: http://kvennafri.is/yfirlysing2018.

Ljósmyndir og nánari upplýsingar

Að fundinum á Arnarhóli stóðu samtök kvenna og launafólks.

Ljósmyndir og myndbönd voru tekin á fundinum, sem eru frjáls til birtingar gegn því að vera merkt. Ljósmyndir skal merkja ljósmyndara: Rut Sigurðardótti. Myndbönd skal merkja Kvennafrí 2018.

Ljósmyndir og myndbönd eru að finna hér: https://www.dropbox.com/sh/0bsp5klcperj8lb/AACQWrx_mPkaCjurUabpgAbOa?dl=0.

Hafið samband við okkur á kvennafri2018@gmail.com.

Einnig er hægt að fræðast nánar um kvennafríið á samfélagsmiðlum, á Facebook http://facebook.com/kvennafri, á Instagram https://www.instagram.com/kvennafri og á Twitter https://twitter.com/kvennafri.

Tímasetning Kvennafrís

Tímasetning Kvennafrís er reiknað út frá muni á atvinnutekjum karla og kvenna samkvæmt skattagögnum sem Hagstofan birtir, ekki út frá óútskýrðum launamun kynjanna.

Ástæða þess að við lítum til kynbundins mun á atvinnutekjum í stað óútskýrðs launamun kynjanna er í stuttu máli sá að kerfisbundið ójafnrétti felst ekki bara í óútskýrða launamuninum heldur líka mun fleiri þáttum eins og hlutfall í stjórnunarstöðum, vinnutími, menntun, starfi, atvinnugrein og barneignum svo eitthvað sé nefnt. Þótt þessir þættir útskýri hluta af launamuninum þá réttlæta þeir hann ekki heldur vekja upp fleiri spurningar hvers vegna má vera að hlutur kynjanna sé svo ójafn í þessum þáttum.

Í meðfylgjandi útgáfu frá Hagstofunni má sjá ýmsa tölfræði um málið. Munur á atvinnutekjum sem þar kemur fram er 28% (2016) en við notum nýrri tölur þar sem munurinn er 26% (2017): https://hagstofa.is/utgafur/nanar-um-utgafu?id=59402.

Merki kvennafrísins

Valerie Pettis pettisdesign.com, hannaði femínísku friðardúfuna sem var merki kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna 1975-1985. Það merki er helst þekkt á Íslandi sem kvennafrísmerki, en það var notað til að kynna kvennafrídaginn 1975. Valerie hefur gefið konum á Íslandi leyfi til að nota dúfuna sem merki kvennafrídagsins um aldur og ævi, gegn því að hennar sé getið og að merkið sé ekki skrumskælt.

Helga Guðrún Magnúsdóttir vann út frá merki Valerie og hannaði merki Kvennafrís 2018. Einnig hannaði hún merki með slagorði baráttufundarins: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.

Þakkir

Aðstandendur kvennafrís þakka þeim fjölda kvenna, karla, félaga og stofnana sem hafa aðstoðað við undirbúning kvennafrís 2018 og skipuleggja fundi um allt land .

Sérstakar þakkir fá söfnin og menningarsetrin út um allt land sem hafa sent inn ljósmyndir af konum við störf og vinnu á Íslandi síðan árið 1900, en þeim myndum er varpað upp á baráttufundi á Arnarhóli 24. október 2018. Takk, Byggðasafn Árnesinga,  Byggðasafn Hafnarfjarðar, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Ljósmyndasafn Austurlands, Ljósmyndasafn Ísafjarðar, Ljósmyndasafn menningarmiðstöðvar Hornarfjarðar, Ljósmyndasafn Vestmannaeyja , Menningarmiðstöð Þingeyinga, og Síldarminjasafn Íslands! Sérstakar þakkir fær einnig búningadeild Þjóðleikhússins fyrir ómetanlega hjálp.

Sérstakar þakkir fær einnig Aðalheiður Þorsteinsdóttir sem gerði útsetningu á laginu „Áfram stelpur“ fyrir kóra og hefur gefið konum um allt land leyfi til að nota þá útsetningu í kvennafríi 2018.

Myndefni frá 2016

Aðstandendur Kvennafrís 2016 tóku upp myndbönd á baráttufundi á Austurvelli 24. október 2016: http://bit.ly/2mGovDF.

Frjálst leyfi er gefið til notkunar á þessu myndefni, gegn því að það sé merkt: „Kvennafrí 2016“.