KVENNAFRÍ, SAGAN

kvennafrí sagan1

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 skyldi sérstaklega helgað málefnum kvenna undir kjörorðunum „jafnrétti, framþróun, friður“. Íslensk kvennasamtök tóku höndum saman í upphafi árs 1975 til að skipuleggja aðgerðir ársins og héldu m.a. fjölsótta ráðstefnu í júní þar sem staða og kjör kvenna voru rædd og fjölmargar ályktanir og tillögur samþykktar. Meðal þeirra var tillaga frá Rauðsokkahreyfingunni þess efnis að konur tækju sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna, þann 24. október.

Kvenfélög og kvennasamtök mynduðu sérstaka þverpólitíska nefnd í september 1975 til að undirbúa kvennafrí. Nefndin hélt fund með 50-60 fulltrúum félagasamtaka þann september og var þar nokkur umræða um hvort kalla ætti aðgerðina kvennafrí eða kvennaverkfall. Var ákveðið að tala um kvennafrí í þeim tilgangi að ná til sem flestra kvenna.

Framkvæmdanefndin undirbjó daginn mjög vel um allt land og stóð m.a. fyrir útifundi á Lækjartorgi. Talið er að um 25.000 konur hafi safnast þar saman. Líklega var þetta einn stærsti útifundur Íslandssögunnar. Fjölmargir fundir voru haldnir um allt land sem voru einnig fjölsóttir. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og atvinnulífið lamaðist. Markmiði dagsins um að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna á Íslandi hafði verið náð. Markmiði með kvennaári og kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna um fullt jafnrétti kynjanna í reynd er enn í vinnslu.

Á tíu ára afmæli kvennafrídagsins var hann haldinn í annað sinn en það markaði einnig lokin á kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna. Tóku 18 þúsund manns þátt í útifundunum á Lækjartorgi það árið. Á þessum tíu árum hafði Vigdís Finnbogadóttir náð kjöri sem forseti Íslands og Kvennalistinn verið stofnaður og náð þremur konum inn á þing í þingkosningunum 1983. Á 30 ára afmæli kvennafrísins árið 2005 var haldið upp á daginn í þriðja sinn. Fóru konur í kröfugöngu frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg undir slagorðinu „Konur höfum hátt“. Söfnuðust saman um 50.000 manns í miðbænum á meðan útifundinum stóð. Þá voru einnig haldnir fundir víða um land. Árið 2010 var kvennafrí haldið í fjórða sinn og er áætlað að um 50.000 manns hafi komið saman í Reykjavík mánudaginn 25. október til að mótmæla ójafnrétti á Íslandi.

Á heimasíðu Kvennasögusafns Íslands, www.kvennasogusafn.is, er hægt að lesa meira um kvennafrídagana; sjá dagskrá fundanna, lesa ræður og skoða myndir. Þá varðveiti safnið skjöl kvennafrídaganna.