Ræða Áslaugar Thelmu Einarsdóttur á Arnarhóli 24. október 2018

Það er svo auðvelt og óhjákvæmilegt að vera reið og fordæma – ekki síst á Facebook – þegar Donald Trump, Weinstein eða aðrir ámóta eiga á í hlut. Það sem gerir það enn auðveldara er að þeir sitja ekki með okkur í mötuneytinu í hádeginu og eru ekki stjórnandinn í fyrirtækinu sem við vinnum hjá. Það er svo auðvelt og sjálfsagt að setja nafn sitt á lista, deila almennum skilaboðum með „hasstaggi“ eða „læka“ hjá vinkonum þegar eitthvað eða einhver gengur fram af þeim eða manni sjálfum.

Þegar málin eru hins vegar komin í návígi getur það orðið aðeins flóknara að taka af skarið – að vera virkur þátttakandi í þeirri #MeToo byltingu sem er að hrista gamalgrónar stoðir valdakerfis þar sem konur hafa ekki átt upp á pallborðið. Eða kannski er það ekki svo flókið þegar rætt er um forstjóra eða framkvæmdastjóra í ónefndum fyrirtækjum eða öðrum stjórnmálaflokki en við erum í sjálfar, eða bara gamla rugludalla út í bæ sem hafa klippt á allt samhengi við samfélagið.

Það er hins vegar af allt öðrum toga og erfiðari skref að taka, að fara til yfirmanna sinna og tilkynna um brot gegn manni sjálfum á eigin vinnustað.

Samt þyngjast puttarnir á lyklaborðinu. Þekki ég þennan mann? Þekki ég konuna hans? Þekki ég kannski fórnarlambið? Þá er kannski auðveldara að hugsa „æ aumingja hún“ og þakka fyrir að vera ekki „konan“.

Sporin eru þung á fyrsta fundinn með starfsmannstjóranum. Þyngri á fund númer tvö, fund númer þrjú og fund númer fjögur og svo framvegis og framvegis. Erindið er alltaf það sama. Yfirmaður minn er ruddi og dóni. Hann brýtur á mér og misbýður mér mörgum sinnum í viku. Örvæntingin er mikil þegar starfsmannastjórinn segir: „Spjallaðu bara við hann og þið finnið út úr þessu.“

Og þau eru blýþung skrefin sem svo þarf að taka þegar gerandinn hefur komið því þannig fyrir að hann getur rekið þig án útskýringa. Að leita með málstað sinn út til almennings og á samfélagsmiðla til þess eins að finna einhvern sem vill standa með manni í óréttlætinu.

Það er erfitt að fara á fund með starfsmannastjóranum og forstjóranum og fá að heyra að yfirmaðurinn sé nú svo góður rekstrarmaður að það verði nú að gefa honum séns. Þess vegna hafi þurft að reka þig, svo hann gæti haldið áfram að vera góður rekstrarmaður.

Hún er ógeðfelld tilfinningin að fá svo tilboð eftir þennan fund um að láta þetta bara yfir sig ganga. Bara til að þegja og láta uppsögnina standa. Í staðinn verði lengt aðeins í uppsagnarfrestinum.

Hljómar það eins og frábær díll? Ferill þinn sem stjórnandi er laskaður og þú sem manneskja lent í skelfilegum hvirfilbyl af því þú vildir ekki sitja þegjandi undir áreiti og einelti á vinnustað.

„Ég þori get og vil,“ sungu mamma mín og amma árið 1975, árið sem ég fæddist og þær eru meðal þeirra mörgu fyrirmynda; sterkra kvenna sem hafa blásið mér kjarki í brjóst. Það er ólíðandi að konur skuli enn – 43 árum síðar – vera í skugga valdníðslu, mismununar og þess að vera ekki taldar marktækar; á vinnustöðum, í pólitík og á allt of mörgum sviðum samfélagsins.

Konur, hættum nú að reyna að aðlagast. Hættum að reyna að skilja hvernig þetta „á að vera“. Vinnustaðirnir eru okkar vinnustaðir, ekki síður en karla. Það er engin staður lengur fyrir öfgakarlrembur og dóna. Þetta er okkar samfélag, gerum það betra NÚNA.

Kæru konur, ég sé ekki eftir því að hafa staðið upp. Èg myndi gera það aftur, vitandi hvað það hefur verið erfitt. En èg verð að trúa því að svona breytum við heiminum, með einu skrefi í einu.

Þorum að standa með kynsystrum okkar! Þorum að trúa frásögnum þeirra og skila skömminni þangað sem hún á heima.
Kæru konur! Ég þori, get og vil. Og gleymdu því aldrei.